Verksamningur um Lækjartún undirritaður
26. janúar 2021
RST Net varð hlutskarpast í útboði um Lækjartún (LAE-30) fyrir Landsnet.
RST Net hefur undirritað verksamning um uppsetningu á búnaði fyrir nýtt tengivirki á Lækjartúni. Lækjartún verður nýtt yfirbyggt 220/132kV-66kV tengivirki á Suðurlandi austan við Þjórsá. Með tengivirkinu verður komið á tengingu 220 kV flutningskerfisins við 66 kV svæðiskerfið sem mun styrkja möguleika flutningskerfisins á Suðurlandi umtalsvert, en álag hefur aukist mikið á svæðinu á síðustu árum.
Lækjartún mun tengjast 220 kV Búrfellslínu 2 og báðum hlutum 66 kV kerfisins í landshlutanum. Á milli Hellu og Lækjartúns er áformað að setja Selfosslínu 2 í jörð á um 16 km löngum kafla. Þá verður Selfosslína 2 tengd við tengivirkið með um 1 km löngum 66 kV jarðstreng.
Vinna við hönnun og innkaup er strax farin af stað og er gert ráð fyrir að framkvæmdir á verkstað hefjist í september 2021 og verði lokið fyrir árslok. Tengivirkið er stafrænt að fullu samkvæmt evrópskum stöðlum og unnið í samstarfi við sérhæfð erlend fyrirtæki á þessu sviði: ABB-Hitachi, Knobel Engineering og fleiri.