Landsvirkjun kaupir 16 hraðhleðslustöðvar

31. október 2023

Sigmundur Jónsson framkvæmdastjóri RST Net og Georg Þór Pálsson stöðvarstjóri Landsvirkjunar á Þjórsársvæði.

RST Net hefur afhent Landsvirkjun 16 hraðhleðslustöðvar sem settar verða upp á öllum aflstöðvum Landsvirkjunar víðsvegar um landið. Búnaðurinn kemur frá finnska framleiðandanum Kempower og er hver stöð á bilinu 50-350 kW. Samanlögð afkastageta allra stöðvanna er 1.850 kW. Stækkunarmöguleiki er fyrir hendi í flestum tilvikum, til dæmis er hægt að stækka aflskápa úr 50 kW upp í 200 kW og fjölga úttökum. 

Uppsetning stöðvanna er í höndum starfsfólks Landsvirkjunar og er sú vinna farin af stað, stefnt er að uppsetningu ljúki næsta sumar. Fjölgun hleðslustöðva er liður í orkuskiptaáætlun Landsvirkjunar en fyrirtækið hyggst hætta að kaupa jarðefnaeldsneyti fyrir árið 2030. Kaupin eru framkvæmd samkvæmt útboði sem haldið var fyrr á árinu þar sem RST Net varð hlutskarpast. Hleðslustöðvarnar eru einungis ætlaðar starfsfólki Landsvirkjunar og verktaka sem vinna fyrir Landsvirkjun og því lokaðar almenningi.

RST Net er sölu- og þjónustuaðili fyrir Kempower búnað á Íslandi. Við bjóðum upp á alhliða þjónustu þegar kemur að undirbúningi, uppsetningu og rekstri hraðhleðslustöðva. 

Við óskum Landsvirkjun til hamingju með hleðslustöðvarnar og þökkum fyrir viðskiptin. Við hlökkum til að hlaða okkar bíla þegar starfsmenn okkar eru við vinnu í aflstöðvum Landsvirkjunar.