Þrjú tengivirki afhent Landsneti
4. júní 2021
RST Net afhendir Landsneti þrjú stafræn tengivirki á Hnappavöllum, á Sauðárkróki og í Varmahlíð
Í þessari viku afhenti RST Net þrjú ný stafræn tengivirki yfir til Landsnets. Um er að ræða tengivirki á Hnappavöllum í Öræfum (EPC), Sauðárkróki og í Varmahlíð. Öll tengivirkin eru yfirbyggð og SF6 gaseinangruð. Tengivirkin eru af nýrri kynslóð tengivirkja með nýjum stafrænum búnaði til mælinga og eru tengivirkin því svokölluð stafræn tengivirki. Stafrænt tengivirki er hugtak notað um rafmagnstengivirki þar sem rekstri þess er stjórnað með dreifðri greind rafeindatækja (distributed intelligent electronic devices) sem eru tengd saman með ljósleiðara. Stafrænu tengivirkin hafa í för með sér meiriháttar ávinning í hönnun, uppsetningu og rekstri. Með því að notast við ljósleiðara fyrir mælingar, stjórn- og varnarbúnað sparast einnig umtalsvert magn af koparstrengjum.
Uppsetning tengivirkjana gekk vel þrátt fyrir miklar áskoranir vegna Covid-19 faraldursins.
Framkvæmdir við tengivirkið á Hnappavöllum hófust í maí 2020 og framkvæmdum lauk með spennusetningu 2. júní 2021. Verkefnið er EPC verkefni þ.e. RST Net sá um hönnun, útvegun og uppsetningu á bæði byggingu og rafbúnaði. Tengivirkið er með þremur 145 kV GIS rofareitum frá ABB í Þýskalandi og eykur afhendingargetu á raforku á svæðinu m.a. til uppbyggingar ferðaþjónustu í Öræfasveit.
Framkvæmdir í Skagafirði hófust vorið 2020 og lauk framkvæmdum með spennusetningu í Varmahlíð 29. maí og á Sauðárkróki 01. júní 2021. Samhliða byggingu þessara tveggja tengivirkja var lagður 66 kV jarðstrengur á milli Sauðárkróks og Varmahlíðar sem RST Net sá um að tengja.
Í þessum tveimur tengivirkjum sá RST Net um hönnun, útvegun og uppsetningu á öllum háspennubúnaði ásamt stjórn- og varnarbúnaði og DC kerfum. Háspennurofabúnaðurinn í báðum tengivirkjunum kemur frá ABB í Þýskalandi líkt og á Hnappavöllum.
Hluti af verkinu var einnig að hanna, útvega og setja upp 132 kV lofteinangraðan rofareit sem stækkun við núverandi útitengivirki í Varmahlíð til að tengja nýja stafræna tengivirkið við byggðalínuna.
Ofangreindar framkvæmdir í Skagafirði koma til með að auka afhendingaröryggi raforku á svæðinu til muna.