Nýtt vörumerki fyrir orkuskipti atvinnubíla

30. ágúst 2022

Orkuhlaðan er nýtt vörumerki í eigu RST Nets sem býður upp á orkuskiptalausnir fyrir atvinnubíla.

Undanfarin misseri hefur RST Net búið sig undir næstu skref í orkuskiptum á Íslandi, orkuskipti stærri atvinnubíla, og hefur nú komið á fót nýju vörumerki tileinkað orkuskiptalausnum fyrir atvinnubíla og -tæki. Nýja vörumerkið, Orkuhlaðan, býður upp á hleðslustöðvar og aðrar orkuskiptalausnir sem henta fyrir atvinnubíla á borð við rútur, flutningabíla og önnur atvinnutæki. 

Orkuskipti stærri atvinnubíla er mikilvægur þáttur í að uppfylla gefin loforð stjórnvalda um samdrátt í losun frá vegasamgöngum. Hlutfall hópbifreiða, sendibifreiða og flutningabifreiða er 13,2% af heildar bílaflota landsins en þær bera ábyrgð á 36% losunar í vegasamgöngum. Það er því til mikils að vinna.

Minna hefur borið á rafdrifnum rútum og flutningabílum á Íslandi en framboð þeirra er sífellt að aukast og eru flestir framleiðendur stærri ökutækja annað hvort með rafbíla í framleiðslu eða á leiðinni í framleiðslu. Rafhlöður þessara bíla, þ.e.a.s. í rútum og flutningabílum, eru mun stærri en í fólksbílum sem kallar á fleiri og öflugri hleðslustöðvar.

Orkuskiptaverkefni af þessu tagi falla vel að starfsemi RST Nets, enda mikil reynsla og þekking á rafbúnaði innanhúss. Þetta er heldur ekki í fyrsta skipti sem RST Net kemur að orkuskiptaverkefnum því fyrirtækið setti upp hleðslustöðina fyrir Herjólf sem er líklega aflmesta hleðslustöð landsins. RST Net hefur einnig sinnt viðhaldi og viðgerðum á hleðslubúnaði fyrir Herjólf undanfarin ár.

Inni á nýrri heimasíðu Orkuhlöðunnar, www.orkuhladan.is, má sjá framboð hleðslustöðva og annan búnað sem henta fyrir orkuskipti í ýmsum atvinnurekstri.

Aðrar Fréttir